ISLANDA Legge 11 giugno 2010

Frumvarp til laga

um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög).

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)

I. KAFLI
Breyting á hjúskaparlögum, nr. 31/1993, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðanna „karls og konu“ í 1. gr. laganna kemur: tveggja einstaklinga.

2. gr.

    1. málsl. 7. gr. laganna orðast svo: Tveir einstaklingar mega stofna til hjúskapar þegar þeir hafa náð 18 ára aldri.

3. gr.

    Í stað orðsins „maður“ í 1. málsl. 8. gr. laganna kemur: einstaklingur.

4. gr.

    Í stað orðsins „mann“ í 11. gr. laganna kemur: þann.

5. gr.

    Við lögin bætist ný grein, svohljóðandi:
Einstaklingar í staðfestri samvist, sem stofnað hefur verið til samkvæmt lögum nr. 87/1996, og hefur ekki verið slitið, geta fengið samvist sína viðurkennda sem hjúskap. Einstaklingar sem óska eftir slíkri viðurkenningu skulu báðir undirrita yfirlýsingu þess efnis sem beint skal til Þjóðskrár. Breytingin miðast við þann dag þegar yfirlýsing er lögð fram í Þjóðskrá.
Einstaklingar í staðfestri samvist, sbr. 1. mgr., geta einnig stofnað til hjúskapar skv. IV. kafla laga þessara. Vottorð um að viðkomandi séu í staðfestri samvist kemur þá í stað könnunarvottorðs skv. III. kafla laganna.
Staðfest samvist, sem stofnað hefur verið til samkvæmt lögum nr. 87/1996, hefur sömu réttaráhrif og hjúskapur. Ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 114. gr. er ávallt heimilt að höfða mál skv. 113. gr. vegna staðfestrar samvistar fyrir íslenskum dómstólum hafi staðfesting farið fram hér á landi.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 123. gr. er íslenskum stjórnvöldum ávallt heimilt að leysa úr málum vegna staðfestrar samvistar sem stofnað hefur verið til hér á landi.

II. KAFLI
Breyting á lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952.
6. gr.

    2. málsl. 8. gr. laganna orðast svo: Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. skal t.d. einstaklingur í hjúskap, sem dvelur a.m.k. tvo mánuði í öðru sveitarfélagi en þar, sem hann telst eiga heimilisfang, án þess að um sé að ræða undantekningu frá tilkynningarskyldu skv. 3. mgr. 3. gr., tilkynna aðsetur sitt, hvort sem um er að ræða slit á samvistum við maka hans eða ekki.

III. KAFLI
Breyting á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, með síðari breytingum.
7. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. gildir einnig um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. barnalaga.

8. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
Ákvæði þessarar greinar gildir einnig um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. barnalaga.

9. gr.

    Orðin „eða staðfestri samvist“ og orðin „eða stofnun staðfestrar samvistar“ í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum.
10. gr.

    Orðin „staðfestar samvistir“ í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum. 11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 7. gr. laganna:
a.      Í stað orðanna „Karl og kona“ í 1. málsl. kemur: Tveir einstaklingar.
b.      2. málsl. fellur brott.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, með síðari breytingum.
12. gr.

    100. gr. laganna orðast svo:
Við slit á óvígðri sambúð getur annar sambúðarmaka eða báðir krafist opinberra skipta til fjárslita milli þeirra. Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í Þjóðskrá eða sem ráða má af öðrum ótvíræðum gögnum, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi búið saman samfleytt í að minnsta kosti tvö ár.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um mannanöfn, nr. 45/1996, með síðari breytingum.
13. gr.

    Við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður sem verður 3. málsl., svohljóðandi: Með kenningu til föður í lögum þessum er einnig átt við kenningu til foreldris barns sem getið er við tæknifrjóvgun samkvæmt ákvæði 2. mgr. 6. gr. barnalaga.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, með síðari breytingum. 14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
a.      Orðin „einstaklingar í staðfestri samvist“ í 1. mgr. falla brott.
b.      Orðin „staðfestri samvist eða“ í 2. og 3. mgr. falla brott.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.
15. gr.

    Orðin „eða staðfestri samvist“ og „eða staðfestingu samvistar“ í e-lið 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
a.      Orðin „og samvistarmaki“ í 2. mgr. falla brott.
b.      Orðin „staðfestrar samvistar“ í 1. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 6. mgr. falla brott.
c.      Orðin „eða staðfestrar samvistar“ tvívegis í 2. málsl. 3. mgr. falla brott.
d.      Orðin „staðfestri samvist“ í 1. málsl. 6. mgr. falla brott.

17. gr.

    Í stað orðanna „sambúðarmaki eða samvistarmaki“ í a-lið 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: eða sambúðarmaki.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
a.      Í stað orðanna „sambúðarmaki eða samvistarmaki“ í 3. mgr. kemur: eða sambúðarmaki.
b.      Í stað orðanna „sambúðarmaka eða samvistarmaka“ í 3. mgr. kemur: eða sambúðarmaka.

X. KAFLI
Breyting á barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum.
19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
a.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður sem verður 1. málsl., svohljóðandi: Um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun gilda ákvæði 6. gr.

20. gr.

    5. gr. laganna fellur brott.

21. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
Kona sem elur barn sem getið er við tæknifrjóvgun telst móðir þess.
Kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst foreldri barns sem þannig er getið. Sama á við um konur sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
Maður sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu sinni samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun telst faðir barns sem þannig er getið. Sama á við um mann og konu sem skráð hafa sambúð sína í þjóðskrá.
Maður sem gefur sæði í þeim tilgangi að það verði notað við tæknifrjóvgun á annarri konu en eiginkonu sinni eða sambúðarkonu, sbr. 3. mgr., samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun verður ekki dæmdur faðir barns sem getið er með sæði hans.
Maður sem gefið hefur sæði í öðrum tilgangi en greinir í 4. mgr. telst faðir barns sem getið er með sæði hans nema sæðið hafi verið notað án vitundar hans eða eftir andlát hans.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
a.      Í stað „1. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. kemur: 3. mgr. 6. gr.
b.      Í stað orðsins „kjörmóðir“ í 2. mgr. kemur: foreldri.

23. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
a.      Í stað orðsins „kjörmóður“ í 1. og 2. mgr. kemur: foreldri.
b.      Í stað orðanna „mann eða kjörmóður skv. 2. mgr. 6. gr.“ í 3. mgr. kemur: foreldri.

XI. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum.
24. gr.

    Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ í 1. tölul. 3. mgr. 39. gr. a laganna falla brott.

XII. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.
25. gr.

    Orðin „aðilar í staðfestri samvist“ í 1. tölul. 3. mgr. 40. gr. a laganna falla brott.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, með síðari breytingum.
26. gr.

    Orðin „hvort sem viðkomandi var í hjúskap eða staðfestri samvist“ í 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. laganna falla brott.

XIV. KAFLI
Breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, með síðari breytingum.
27. gr.

    1. tölul. 3. mgr. 100. gr. laganna orðast svo: Hjón, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í skráðri sambúð.

XV. KAFLI
Breyting á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.
28. gr.

    2. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
Sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig tveir einstaklingar sem búa saman, enda hafi óvígð sambúð þeirra verið skráð í þjóðskrá í a.m.k. eitt ár áður en umsókn er lögð fram.

XVI. KAFLI
Breyting á húsaleigulögum, nr. 36/1994, með síðari breytingum.
29. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
Ákvæði í lögum þessum um hjón og maka eiga einnig við um einstaklinga í óvígðri sambúð eða sambúð af öðru tagi sem staðið hefur samfleytt í eitt ár. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er í þjóðskrá enda eigi þeir barn saman, von á barni saman eða sambúðin hefur verið skráð í eitt ár samfellt hið skemmsta.

XVII. KAFLI
Breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum.
30. gr.

    Orðin „staðfestri samvist“ í 4. mgr. 12. gr. laganna falla brott.

31. gr.

    Orðin „samvistarmaka“ og „samvistarmaki“ í 1. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

32. gr.

    Orðin „eða samvistarmakar“ í c-lið 22. gr. laganna falla brott.

XVIII. KAFLI
Breyting á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 22/2006, með síðari breytingum.
33. gr.

    Í stað orðanna „sambúðarmaki eða samvistarmaki“ í 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna kemur: eða sambúðarmaki.

34. gr.

    2. málsl. 5. mgr. 8. gr. laganna orðast svo: Maki eða sambúðarmaki foreldris sem fer með forsjána getur átt rétt til greiðslna skv. 1. og 3. mgr. liggi fyrir samþykki beggja kynforeldra barns enda hafi hjónaband eða skráð sambúð staðið yfir lengur en eitt ár.

35. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna orðast svo: Maki eða sambúðarmaki foreldris sem fer með forsjána getur átt rétt til greiðslna skv. 1. mgr. liggi fyrir samþykki beggja kynforeldra barns enda hafi hjónaband eða skráð sambúð staðið yfir lengur en eitt ár.

36. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 19. gr. laganna orðast svo: Maki eða sambúðarmaki foreldris sem fer með forsjána getur átt rétt til greiðslna liggi fyrir samþykki beggja kynforeldra barns enda hafi hjónaband eða skráð sambúð staðið yfir lengur en eitt ár.

XIX. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.
37. gr.

    49. gr. laganna orðast svo:
Sama rétt til bóta og hjón hafa samkvæmt lögum þessum einnig einstaklingar sem eru í óvígðri sambúð. Með óvígðri sambúð í lögum þessum er átt við sambúð tveggja einstaklinga, sem skráð er í þjóðskrá, enda eigi þeir barn saman eða von á barni saman eða hafi verið í sambúð samfleytt lengur en eitt ár. Sama gildir um bótarétt þess sem eftir lifir.

XX. KAFLI
Breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með síðari breytingum.
38. gr.

    Í stað orðanna „karl og konu eða tvo einstaklinga af sama kyni“ í 3. málsl. 13. gr. laganna kemur: tvo einstaklinga.

XXI. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.
39. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. mgr. 17. gr. laganna:
a.      Orðin „staðfestri samvist, sbr. lög nr. 87/1996“ í 1. málsl. falla brott.
b.      Í stað orðanna „karls og konu“ í 2. málsl. kemur: tveggja einstaklinga.
c.      3. málsl. fellur brott.

XXII. KAFLI
Breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.
40. gr.

    Í stað orðanna „óvígð sambúð eða staðfest samvist“ í 2. málsl. 3. mgr. 14. gr. laganna kemur: eða óvígð sambúð.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 16. gr. laganna:
a.      Í stað orðanna „hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð“ í 1. málsl. kemur: hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga.
b.      Í stað orðanna „karls og konu“ í 2. málsl. kemur: tveggja einstaklinga.
c.      3. málsl. fellur brott.
d.      Í stað orðanna „stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar“ í 4. málsl. kemur: eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.

XXIII. KAFLI
Breyting á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, nr. 155/1998, með síðari breytingum. 42. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 12. gr. laganna:
a.      Í stað orðanna „hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð“ í 1. málsl. kemur: hjúskap eða óvígðri sambúð með sjóðfélaga.
b.      Í stað orðanna „karls og konu“ í 2. málsl. kemur: tveggja einstaklinga.
c.      3. málsl. fellur brott.
d.      Í stað orðanna „stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar“ í 5. málsl. kemur: eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar.

XXIV. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, með síðari breytingum.
43. gr.

    Orðin „eða staðfest samvist“ í 3. málsl. 2. mgr. 8. gr. laganna falla brott.

44. gr.

    Í stað orðanna „óvígða sambúð eða staðfesta samvist“ í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: eða óvígða sambúð.

45. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Þeim er nýtur lífeyris skv. 9. gr. og uppfyllir skilyrði 2. mgr. 8. gr. um hjúskap eða óvígða sambúð er skylt að tilkynna stjórn sjóðsins skriflega og án tafar ef maki eða sambúðaraðili fellur frá ellegar hjúskap eða óvígðri sambúð er slitið.

XXV. KAFLI
Breyting á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum.
46. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. laganna:
a.      3. mgr. orðast svo:
Einstaklingar í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlagðir sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þeir þess báðir skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð tveggja einstaklinga sem skráð er eða skrá má í þjóðskrá skv. 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili, enda eigi sambúðarfólk barn saman eða von á barni saman eða hafi verið samvistum í samfellt eitt ár hið skemmsta. Ríkisskattstjóra er heimilt að leita umsagnar Þjóðskrár þyki leika vafi á um að skráningarskilyrði séu uppfyllt.
b.      4. mgr. fellur brott.

47. gr.

    80. gr. laganna orðast svo:
Hjón sem samvistum eru, sbr. 5. gr., svo og tveir einstaklingar í sambúð sem óskað hafa samsköttunar skv. 3. mgr. 62. gr., skulu telja saman allar eignir sínar og skuldir og skiptir ekki máli þótt um sé að ræða séreign eða skuldir tengdar henni.

48. gr.

    Orðin „og einstaklinga í staðfestri samvist“ í 3. málsl. 1. mgr. 116. gr. laganna falla brott.

XXVI. KAFLI
Breyting á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum. 49. gr.

    Orðin „einstaklingur í staðfestri samvist með arfleifanda“ í 3. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

XXVII. KAFLI
Breyting á lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, nr. 55/1996, með síðari breytingum.
50. gr.

    Í stað orðanna „í sambúð eða staðfestri samvist“ í a-lið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: eða í sambúð.

51. gr.

    Í stað orðanna „staðfestri samvist“ í 2. málsl. 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: hjónabandi.

52. gr.

    Í stað orðanna „karlmaður sá og kona, sem leggja kynfrumurnar til, eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: karlmaður sá eða kona, sem leggja kynfrumurnar til, og maki viðkomandi eða sambúðarmaki.

53. gr.

    Í stað orðanna „karlmaður sá og kona, sem lögðu kynfrumurnar til, slíta hjúskap eða óvígðri sambúð eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð slíta henni“ í 1. málsl. 4. mgr. 10. gr. laganna kemur: par sem samþykkti geymslu fósturvísanna slítur hjúskap eða óvígðri sambúð sinni.

XXVIII. KAFLI
Gildistaka og brottfall laga.
54. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 27. júní 2010.
Við gildistöku laga þessara falla brott lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

1. Inngangur.
Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra sem fór þess á leit við Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni að stofnunin tæki að sér að semja frumvarp til breytinga á hjúskaparlögum o.fl. Verkefnið var afmarkað með svohljóðandi hætti:
„Samkvæmt gildandi lögum geta karl og kona gengið í hjúskap á grundvelli hjúskaparlaga, nr. 31/1993, en tveir einstaklingar af sama kyni geta fengið samvist sína staðfesta á grundvelli laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á síðarnefndu lögunum frá gildistöku þeirra sem hafa breytt stöðu fólks í staðfestri samvist og gert hana enn líkari stöðu karls og konu í hjúskap. Þannig hefur prestum og forstöðumönnum trúfélaga verið veitt heimild til þess að staðfesta samvist, auk þess sem breytingar á öðrum lögum, svo sem lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999, hafa veitt einstaklingum í staðfestri samvist aukinn rétt frá því sem var við setningu laga um staðfesta samvist.
Nú er svo komið að rétt þykir að afmá þann mun sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestingar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar, og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið að ein hjúskaparlög verði lögfest.
Dómsmálaráðuneytið fer þess á leit við Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni að stofnunin taki að sér að semja frumvarp til breytinga á hjúskaparlögum (og e.a. öðrum lögum er málið varðar) ásamt athugasemdum, í samræmi við framanrituð áform ríkisstjórnarinnar um að í gildi séu ein hjúskaparlög fyrir alla.“
Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr fól Hrefnu Friðriksdóttur, lektor í sifja- og erfðarétti við lagadeild Háskóla Íslands, að semja frumvarp sem skilað var til ráðuneytisins og er hér lagt fram með fáeinum orðalagsbreytingum. Við undirbúning frumvarpsins var farið yfir þróun réttinda samkynhneigðra á Íslandi. Þá var aflað upplýsinga um þróun löggjafar í öðrum löndum og þær leiðir sem farnar hafa verið til að heimila samkynhneigðum að stofna til hjúskapar. Einnig var tekið tillit til alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að. Áður en vikið verður að skýringum á einstaka ákvæðum þykir rétt að fjalla með almennum hætti um ofangreind atriði.

2. Lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996.
2.1 Aðdragandi að setningu laga um staðfesta samvist.
    Alþingi ályktaði í fyrsta sinn um málefni samkynhneigðra þann 19. maí 1992 og lýsti yfir vilja sínum til að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu samkynhneigðra í samfélaginu. Þingsályktunin var í heild sinni svohljóðandi:
„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til þess að kanna stöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. Nefndin skal skipuð fulltrúum dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og hagsmunasamtaka samkynhneigðs fólks. Skal nefndin kanna lagalega, menningarlega og félagslega stöðu þess og gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að misrétti gagnvart samkynhneigðu fólki hverfi hér á landi.“
Nefndin lauk störfum haustið 1994 með útgáfu skýrslu um málefni samkynhneigðra. Tillögur nefndarinnar um úrbætur voru þríþættar. Í fyrsta lagi lutu þær að fræðslu um samkynhneigð og hvernig uppræta mætti fordóma í þjóðfélaginu í garð samkynhneigðs fólks. Í öðru lagi var lagt til að breyta refsilögum til þess að vernda samkynhneigða gegn aðkasti og misrétti. Í þriðja lagi lagði meiri hluti nefndarinnar til úrbætur til þess að veita samkynhneigðum í sambúð kost á því að njóta réttarstöðu sem væri sambærileg við réttarstöðu hjóna, en þó með undantekningum sem snerust að verulegu leyti um réttarstöðu samkynhneigðra gagnvart börnum. Þess má geta að minni hluti nefndarinnar vildi ganga lengra þannig að engar undantekningar mundu gilda um stofnun og réttaráhrif staðfestrar samvistar frá þeim reglum sem giltu um hjúskap.
Í kjölfar skýrslunnar var m.a. lagt fram frumvarp til laga um staðfesta samvist sem hafði það meginmarkmið að gefa samkynhneigðum kost á að njóta sambærilegrar réttarstöðu og hjón. Markmið frumvarpsins var einnig að viðurkenna jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra almennt í fjölskyldulífi og að eyða þannig fordómum í garð samkynhneigðra.
Hugtakið staðfest samvist var nýtt í umræðunni og í lögum sem giltu um viðurkennd sambúðarform á Íslandi. Var byggt á sama grunni og gert hafði verið í lögum sem sett höfðu verið í Danmörku árið 1989, Noregi árið 1993 og í Svíþjóð árið 1994. Í frumvarpinu var tekið mið að því mati nefndarinnar um málefni samkynhneigðra að mikilvægt væri að hafa lagasamræmi á Norðurlöndum um réttarstöðu samkynhneigðra, eins og almennt væri leitast við á sviði sifjaréttar.
Norrænu lögin áttu það öll sameiginlegt að þar var sett fram sú meginregla að um stofnun staðfestrar samvistar og hjónabands giltu sömu skilyrði og að réttarstaða einstaklinga í staðfestri samvist og við lok hennar væri sú sama og réttarstaða einstaklinga í hjónabandi. Nokkrar undantekningar voru þó frá þessari meginreglu og voru þær að meginstefnu sambærilegar í framangreindum lögum á Norðurlöndunum.

2.2 Lög um staðfesta samvist.
Í 1. gr. laganna um staðfesta samvist hefur frá upphafi verið gert ráð fyrir að tveir einstaklingar af sama kyni geti stofnað til staðfestrar samvistar. Orðalag greinarinnar útilokar að tveir einstaklingar af gagnstæðu kyni geti verið í staðfestri samvist, enda er markmið ákvæðisins að samkynhneigðir í sambúð geti notið þeirra réttinda sem kveðið er á um í lögunum. Hins vegar er ekki gert að skilyrði að um samkynhneigða einstaklinga sé að ræða. Við setningu laganna þótti ekki nauðsynlegt eða viðeigandi að setja slíkt skilyrði um kynhneigð og sérstaklega bent á að engin skilyrði væru sett í lögum um gagnkynhneigð karls og konu sem vildu ganga í hjúskap eða skrá óvígða sambúð sína.
Í 5. gr. birtist kjarni laganna. Þar kemur fram að staðfesting samvistar hafi, með tilteknum undantekningum, sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar. Ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda því almennt um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist.
Við setningu laganna var kveðið á um ýmsar undantekningar frá þeirri meginreglu að öll lagaákvæði um hjúskap giltu um einstaklinga í staðfestri samvist. Undantekningar voru m.a. rökstuddar með því að á meðan staðfest samvist væri að festa sig í sessi sem viðurkennt sambúðarform í þjóðfélaginu væri rétt að fara hægt í sakirnar.
Í fyrsta lagi voru lögfestar sérreglur í 2. gr. um skilyrði fyrir því að staðfest samvist gæti farið fram hér á landi, þ.e. gerð var krafa um að báðir einstaklingar eða annar þeirra væri íslenskur ríkisborgari sem ætti lögheimili hér á landi. Rökin voru þau að þetta nýja sambúðarform væri ekki viðurkennt nema í mjög fáum ríkjum utan Norðurlandanna og þess vegna væri rétt að krefjast þess að einstaklingar hefðu ákveðin tengsl við ríki þar sem slík réttarstaða væri tryggð.
Í öðru lagi gátu samkynhneigðir við setningu laganna ekki fengið samvist sína staðfesta í kirkjulegri vígslu heldur var hún framkvæmd af borgaralegum vígslumönnum skv. 3. gr.
Í þriðja lagi kom fram í 6. gr. laganna í upphaflegri mynd að ákvæði ættleiðingarlaga um hjón og laga um tæknifrjóvgun giltu ekki um staðfesta samvist. Ákvæði í alþjóðlegum samningum sem Ísland væri aðili að giltu heldur ekki nema aðrir samningsaðilar féllust á það.
Að síðustu má geta 8. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ávallt sé heimilt að höfða dómsmál eða leita til stjórnvalda á Íslandi vegna staðfestrar samvistar sem stofnað hefur verið til hér á landi.

2.3 Breytingar á lögum um staðfesta samvist o.fl.
2.3.1 Lög nr. 52/2000.
    Lögunum um staðfesta samvist var fyrst breytt með lögum nr. 52/2000 sem tóku gildi 26. maí 2000. Markmiðið var m.a. að breyta skilyrðum til að stofna til staðfestrar samvistar á Íslandi en eðlilegt og sanngjarnt þótti að rýmka skilyrðin með tilliti til borgara annarra ríkja. Ríkisborgararéttur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð var þannig lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt og kveðið á um að ráðherra gæti ákveðið í reglugerð að ríkisborgararéttur í öðru landi þar sem í gildi væru lög um staðfesta samvist yrði einnig lagður að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt. Á þetta nú við um ríkisborgara Finnlands og Hollands, sbr. reglugerð nr. 681/2004.
Þá var bætt við 6. gr. laganna ákvæði um að þau lagaákvæði sem hafa sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans gildi ekki um staðfesta samvist. Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðuna þegar þannig hagar til að kynferði maka hefur eðli málsins samkvæmt þýðingu.
Að lokum var einstaklingi í staðfestri samvist veitt heimild í lögum þessum til að ættleiða barn maka síns sem hann hefði forsjá fyrir nema þegar um væri að ræða kjörbarn frá öðru landi. Hér er um að ræða það sem kallað er stjúpættleiðing og er nánar mælt fyrir um í lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999.

2.3.2 Lög nr. 65/2006.
Þann 27. júní 2006 tóku gildi lög nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra. Eitt meginmarkmið þessara laga var að tryggja réttarstöðu samkynhneigðra í óvígðri sambúð. Talið var að samkynhneigð pör í sambúð byggju við lagalega mismunun að þessu leyti, á mörgum sviðum nytu þau ekki sömu réttinda og gagnkynhneigð pör í óvígðri sambúð og á öðrum sviðum væri réttarstaðan óljós. Það þótti stinga í stúf að samkynhneigð pör ættu þess kost að staðfesta samvist sína með tilheyrandi réttaráhrifum en þau hefðu ekki þann valkost að velja sambúðarform sem almennt fylgdu takmarkaðri réttaráhrif. Engin málefnaleg rök þóttu réttlæta mismunun af þessu tagi.
Til að ná því markmiði að tryggja jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í óvígðri sambúð var 7. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, efnislega breytt þannig að karl og kona eða tveir einstaklingar af sama kyni sem eru samvistum og uppfylla skilyrði II. kafla hjúskaparlaga geta nú fengið sambúð sína skráða í þjóðskrá. Einnig voru gerðar orðalagsbreytingar á ýmsum lagaákvæðum þar sem sérstök réttaráhrif eru bundin við óvígða sambúð til þess að taka af öll tvímæli um að í hugtakinu geti efnislega falist sambúð tveggja einstaklinga af sama kyni.
Með lögunum nr. 65/2006 var einnig gerð sú mikilvæga breyting að fella úr gildi þær takmarkanir sem fólust í 1. mgr. 6. gr. laganna um staðfesta samvist. Með þessu varð samkynhneigðum pörum heimilt að ættleiða börn samkvæmt ættleiðingarlögum, nr. 130/1999, og lesbískum pörum heimil aðstoð við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun, nr. 55/1996. Full samstaða var um að samkynhneigðir væru jafnhæfir uppalendur og gagnkynhneigðir. Ekki þóttu lengur standa rök til þess að gera upp á milli samkynhneigðra og gagnkynhneigðra hvað varðaði rétt til ættleiðinga og talið var eðlilegt að samkynhneigðir nytu sama réttar og gagnkynhneigðir til tæknifrjóvgunar. Sérstaklega var tekið fram við setningu laganna að afstaða samfélagsins til réttinda samkynhneigðra hefði á síðustu misserum færst í þessa átt.
Með lögunum frá árinu 2006 voru skilyrði fyrir því að mega staðfesta samvist á Íslandi einnig rýmkuð enn frekar þannig að ekki er lengur krafist fastar búsetu á Íslandi þegar íslenskir ríkisborgarar eiga í hlut.

2.3.3 Lög nr. 55/2008.
Með lögum sem tóku gildi 27. júní 2008 var prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga, sem hafa vígsluheimild skv. 17. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, veitt heimild til að staðfesta samvist.
Lög þessi voru sett í samræmi við skýra stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í ljósi þess að sátt hafði náðst innan þjóðkirkjunnar. Þannig var vísað til ályktunar Kirkjuþings frá 2007 þess efnis að yrði lögum um staðfesta samvist breytt þannig að trúfélög fengju heimild til að staðfesta samvist, þá styddi Kirkjuþing það að prestum þjóðkirkjunnar yrði það heimilt. Kirkjuþing lagði áherslu á að frelsi presta í þessum efnum yrði virt en í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum er byggt á því að prestar muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Þá er áréttað að sýslumönnum og löglærðum fulltrúum þeirra beri á hinn bóginn eftir sem áður skylda til að staðfesta samvist að fullnægðum settum skilyrðum laga.

2.4 Tölfræði.
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru alls 77.047 kjarnafjölskyldur á Íslandi þann 1. janúar 2009. Langstærstur hluti landsmanna tilheyrir kjarnafjölskyldu, þann 1. janúar 2009 voru það alls 222.373 af alls 299.420 manns sem bjuggu á Íslandi.
Hjónaband er algengasta sambúðarformið á Íslandi. Þann 1. janúar 2009 voru alls 204.794 einstaklingar í hjónabandi eða staðfestri samvist. Mikill meiri hluti þessara eru í hjónabandi en samkvæmt Hagstofunni hafa samtals 195 pör stofnað til staðfestrar samvistar á Íslandi á árunum 1996–2008.
Kirkjulegar hjónavígslur eru mun algengari en borgaralegar vígslur. Á árinu 2008 fóru t.d. fram samtals 1.642 hjónavígslur, af þeim voru 1.310 kirkjulegar og 332 borgaralegar. Á árinu 2008, eftir að lög nr. 55/2008 um vígsluheimild presta og forstöðumanna trúfélaga tóku gildi þann 27. júní, fengu alls 4 pör af sama kyni kirkjulega staðfestingu samvistar. Tölulegar upplýsingar vegna ársins 2009 liggja ekki fyrir.

3. Grundvallarréttindi.
3.1 Réttur til að ganga í hjúskap.
    Þrátt fyrir mismunandi skilgreiningar á hjúskap er víðast í heiminum litið á hjúskapinn sem sterkustu grunnstoð fjölskyldunnar í samfélaginu. Skv. 1. mgr. 71. gr. íslensku stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Verndin nær m.a. til þess að mega stofna fjölskyldu en ekki er fjallað berum orðum um réttinn til að ganga í hjúskap. Rétt þykir að nefna nokkra alþjóðasamninga sem Íslands hefur lögfest eða fullgilt þar sem lögð er áhersla á réttinn til að stofna til fjölskyldu og til að ganga í hjúskap.
Rétturinn til að ganga í hjúskap er ein af grundvallarreglum mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1948. Skv. 16. gr. skal konum og körlum, sem hafa aldur til þess að lögum, heimilt að stofna til hjúskapar og fjölskyldu. Þau skulu njóta jafnréttis um stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu.
Mannréttindasáttmáli Evrópu frá árinu 1950 hefur lagagildi á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994. Skv. 12. gr. mannréttindasáttmálans eiga karlar og konur á hjúskaparaldri rétt á að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu í samræmi við landslög um þessi réttindi. Nánar er fjallað um jafnrétti hjóna í 5. gr. samningsviðauka nr. 7, sbr. breytingar í 2. gr. samningsviðauka nr. 11, en þar segir:
„Hjón skulu njóta jafnréttis að því er varðar réttindi og skyldur að einkamálarétti sín í milli og í tengslum sínum við börn sín, við giftingu, í hjónabandi og ef til hjónaskilnaðar kemur. Þessi grein skal ekki vera því til fyrirstöðu að ríki geri ráðstafanir sem nauðsynlegar eru vegna hagsmuna barnanna.“
Samkvæmt 23. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, sem fullgiltur var á Íslandi 1979, er fjölskyldan hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins og á hún rétt á vernd þjóðfélagsins og ríkisins. Réttur karla og kvenna á hjúskaparaldri til þess að ganga í hjónaband og stofna til fjölskyldu skal viðurkenndur og skulu ríki gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja jöfn réttindi og jafnar skyldur hjóna varðandi stofnun hjúskapar, meðan á hjúskap stendur og við slit hjúskapar. Í almennu áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 19 frá 1990 var ekki talið unnt að setja fram tiltekna skilgreiningu á hugtakinu fjölskylda enda væri ljóst að aðildarríki skilgreindu fjölskyldu með mismunandi hætti. Mannréttindanefndin undirstrikaði þó að hverju ríki bæri að veita öllum þeim sem skilgreindir væru sem fjölskylda í lögum eða framkvæmd þess ríkis alla þá vernd sem ákvæði 23. gr. vísaði til.
Svipað ákvæði er að finna í samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá 1966 sem einnig var fullgiltur á Íslandi árið 1979. Þar kemur fram í 10. gr. að mesta mögulega vernd skuli látin fjölskyldunni í té sem grundvallarhópeiningu þjóðfélagsins, sérstaklega við stofnun hennar.
Samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1979 var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1985. Skv. 16. gr. skulu aðildarríkin m.a. tryggja konum og körlum sama rétt til að velja sér maka og stofna til hjúskapar einungis með frjálsu og fullkomnu samþykki. Þá ber að tryggja konum og körlum sömu réttindi og skyldur meðan á hjúskap stendur og við slit.

3.2 Jafnrétti.
    Samkvæmt 65. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995, skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, litarháttar, ætternis og stöðu að öðru leyti. Við endurskoðun mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar var sérstaklega byggt á þeim alþjóðasamningum sem Íslands er aðili að.
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna byggist á þeirri grundvallarreglu að misrétti sé ekki leyfilegt og þar er því lýst yfir að allir menn séu frjálsbornir og jafnir að virðingu og réttindum og að öllum beri þar til greind réttindi og frelsi, án nokkurrar mismununar. Undirstaða allra mannréttindasamninga er sú að viðurkenning á meðfæddri göfgi og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.
Alþjóðasamningar um mannréttindi byggjast á því að hver maður skuli eiga kröfu á réttindum þeim og frelsi sem þar er lýst, án nokkurs greinarmunar, svo sem vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna, sbr. t.d. 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Ákvæði þessi eru túlkuð með þeim hætti að þau banna mismunun á grundvelli kynhneigðar.
Hér ber einnig sérstaklega að geta samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 1989. Samningurinn var fullgiltur á Íslandi árið 1992 auk þess sem Alþingi ályktaði árið 2009 um að lögfesta samninginn hér á landi. Meginmarkmið samningsins er að tryggja réttindi barnsins í víðtækum skilningi. Í inngangi hans er m.a. tekið fram að undirbúa beri barn að fullu til að lifa sjálfstæðu lífi innan samfélagsins og ala eigi það upp í anda þeirra hugsjóna sem lýst er í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega í anda friðar, virðingar, umburðarlyndis, frelsis, jafnréttis og samstöðu.
Meðal meginreglna samningsins er 2. gr. um jafnrétti allra barna og bann við mismunun vegna tiltekinna atriða eða aðstæðna að öðru leyti og fellur kynhneigð þar undir. Þetta hefur í för með sér að aðildarríki verða að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að sjá um að barni verði ekki mismunað vegna kynhneigðar sinnar. Mikilvægt er að viðurkenna þá staðreynd að flestir einstaklingar verða kynþroska og uppgötva kynhneigð sína áður en þeir ná 18 ára aldri, þ.e. meðan þeir eru enn börn samkvæmt lögum. Á barnsaldri reynir sjaldan á réttinn til að ganga í hjúskap enda er það eitt af hjónavígsluskilyrðunum að almennt megi ekki megi stofna til hjúskapar fyrr en 18 ára aldri er náð, sbr. 7. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Hér verður þó að horfa til þess að löggjöf gegnir lykilhlutverki í því að móta viðbrögð og viðhorf samfélagsins, m.a. til mismunandi fjölskyldugerða. Eins og áður sagði var eitt af markmiðum laga um staðfesta samvist að móta viðhorf með því að undirstrika jafnrétti og jafngildi samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Fjölskyldan er oft kölluð hornsteinn samfélagsins. Öll löggjöf sem mismunar einstaklingum á grundvelli kynhneigðar, sérstaklega löggjöf um ólíkar fjölskyldugerðir eða viðurkennd sambúðarform, er því líkleg til að hafa bein áhrif á sjálfsmynd, þroska og þroskavænleg skilyrði barns á viðkvæmu mótunarskeiði í lífi þess. Hér má einnig benda á að skv. 3. gr. samningsins um réttindi barnsins skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang, m.a. þegar löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn, og skv. 6. gr. ber aðildarríki af fremsta megni að tryggja að barn megi lifa og þroskast. Þetta leggur ríki þær skyldur á herðar að skapa börnum af fremsta megni bestu þroskavænleg uppvaxtarskilyrði sem völ er á.
Jafnræðisregla samningsins um réttindi barnsins mælir einnig fyrir um bann við mismunun vegna aðstæðna foreldra. Ákvæðum samningsins er þannig einnig ætlað að tryggja að börnum í ólíkum fjölskyldugerðum verði ekki mismunað vegna kynhneigðar foreldranna.

4. Löggjöf annarra þjóða.
4.1 Norðurlönd.
    Barátta fyrir jöfnun rétti samkynhneigðra hefur farið stigvaxandi í alþjóðasamfélaginu. Ný löggjöf hefur víða stuðlað að mikilvægum viðhorfsbreytingum, fjölskyldulíf samkynhneigðra orðið sýnilegra og öðlast umtalsverða viðurkenningu.
Eins og áður sagði þykir mikilvægt að stefna að lagasamræmi á Norðurlöndum á sviði sifjaréttar og þykir rétt að gera grein fyrir breytingum sem orðið hafa á rétti norrænna ríkja.
Hjúskaparlögum nr. 47 frá 1991 var breytt í Noregi með lögum nr. 53 frá 2008 sem gengu í gildi 1. janúar 2009. Þá var sænskum hjúskaparlögum nr. 230 frá 1987 breytt með lögum nr. 253 frá 2009 sem tóku gildi 1. maí 2009.
Markmið breytinganna á norsku og sænsku hjúskaparlögunum var að tryggja fullt jafnrétti samkynhneigðra og gagnkynhneigðra og gera samkynhneigðum kleift að ganga í hjónaband. Jafnframt voru numin úr gildi lög sambærileg íslensku lögunum um staðfesta samvist. Ítarleg rök fyrir þessari niðurstöðu má m.a. finna í Or.prp. nr. 33 (2007–2008) Om lov om endringer i ekteskapsloven, barnelova, adopsjonsloven, bioteknologiloven mv. (felles ekteskapslov for heterofile og homofile par), SOU 2007:17 Äktenskap för par með samma kön: Vigselfrågor og Betänkande 2008/09:CU19 Könsneutrala äktenskap och vigselfrågor.
    Lögum hefur ekki verið breytt með sama hætti í Danmörku. Meiri hluti biskupa þar í landi ákvað hins vegar árið 2005 að leyfilegt væri að blessa samvist samkynhneigðra og notast er við helgisiði sem líkjast þeim sem notaðir eru við hjónavígslur.
Í Finnlandi gilda lög frá 2001 sambærileg við lög um staðfesta samvist.

4.1 Önnur lönd.
    Réttarstaða samkynhneigðra á fjölskyldusviðinu breytist ört um allan heim. Mjög víða hafa verið sett lög sambærileg þeim sem hér gilda um staðfesta samvist. Á síðari árum hefur einnig fjölgað þeim ríkjum sem heimila samkynhneigðum að stofna til hjúskapar til jafns við gagnkynhneigða. Holland varð fyrst ríkja heims til að setja ein hjúskaparlög fyrir alla árið 2001 og Spánn fylgdi í kjölfarið árið 2005. Önnur ríki sem heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband eru, auk Norðurlandanna sem vikið var að, Belgía, Kanada, Suður-Afríka, Portúgal, fylkið Mexíkóborg og eftirtalin fylki Bandaríkja Norður-Ameríku, Massachusetts, Connecticut, Iowa, Maine, Vermont, New Hampshire og Washington DC.

5. Staðfest samvist eða hjónaband.
5.1 Almennt.
    Umræðan á Íslandi um það hvort hjúskapur tveggja einstaklinga verði skilgreindur óháð kyni eða kynhneigð hefur farið vaxandi á allra síðustu árum. Ljóst er að samkynhneigðir hafa notið stigvaxandi réttinda hér á landi og þróunin hefur verið sú að afnema takmarkanir þar sem gerður er greinarmunur á réttarstöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra til fjölskyldulífs. Umræðan hefur farið fram á öllum sviðum þjóðlífsins og ekki síst innan kirkjunnar.

5.2 Umræða innan þjóðkirkjunnar.
    Söguleg tengsl ríkis og kirkju hér á landi eru talsverð. Ríki og kirkja mætast m.a. við upphaf hinnar aldagömlu stofnunar sem hjúskapurinn er og þessi tengsl eru helsta ástæða þess að prestar hafa vígsluheimild lögum samkvæmt. Nokkuð sterk hefð er hér á landi fyrir kirkjulegum vígslum umfram borgaralegar eins og áður hefur verið nefnt.
Í ljósi þessa hefur verið vandað til samræðu löggjafans við þjóðkirkjuna þegar mótuð hefur verið löggjöf um fjölskyldulíf samkynhneigðra. Þannig studdi þjóðkirkjan t.d. setningu laga um staðfesta samvist á sínum tíma. Þá samdi biskup Íslands form fyrir fyrirbæn og blessun yfir staðfesta samvist árið 1999.
Prestafélag Íslands og Samtök foreldra og aðstandenda samkynhneigðra efndu til þriggja málþinga á árunum 2004 og 2005 þar sem fjallað var um afmarkaða þætti, svo sem fjölskyldur samkynhneigðra og hjúskaparform og það hvort íslenska þjóðkirkjan gæti haft frumkvæði í málefnum samkynhneigðra.
Nefnd um málefni samkynhneigðra á vegum forsætisráðherra, sem lauk störfum haustið 2005, beindi þeim tilmælum til þjóðkirkjunnar að hún vígði samkynhneigða sem hjón. Í skýrslu nefndarinnar segir m.a.:
„Nefndin hvetur þjóðkirkjuna til þess að breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og gagnkynhneigð pör.“
Prestastefna sem haldin var 2005 beindi þeim eindregnu tilmælum til biskups að hann fæli ráðgjafarnefnd um kenningarleg málefni, sbr. 14. gr. þjóðkirkjulaga og starfsreglur nr. 821/2000, að bregðast við þessu. Álit kenningarnefndar um þjóðkirkjuna og staðfesta samvist var rætt á prestastefnu og Kirkjuþingi árið 2006.
Í álitinu kemur fram að allt til þessa hafi ríki heims og trúarbrögð mannkyns gengið út frá því að hjónaband sé samband karls og konu. Þó er bent á að hjónabandið sé ekki sakramenti samkvæmt lúterskum skilningi heldur lúti sifjarétturinn, þar með stofnun hjúskapar, lögum ríkisins. Aðkoma kirkjunnar að hjónavígslu byggist á því að ríkt hafi samskilningur menningar, löggjafar og trúar hvað varðar skilgreiningu á hjúskap. Þótt stofnun hjúskapar sé málefni hins veraldlega valds hafi kirkjan átt þar hlut að máli vegna þess samhljóms siðarins sem hér hafi verið. Umræða um endurskilgreiningu hjónabandsins varði því samstöðu kirkju og samfélags. Í niðurstöðum kenningarnefndar kemur m.a. fram að þjóðkirkjan meti alla jafnt án tillits til fjölskyldustöðu og þjóðkirkjan haldi á lofti kristilegum gildum sem styðja gott líf, stuðli að réttlæti og standi vörð um velferð allra, sérstaklega þeirra sem af einhverjum ástæðum séu misrétti beittir. Einnig segir að þjóðkirkjan viðurkenni að kynhneigð fólks sé mismunandi og að samkynhneigðir séu hluti af kirkjunni. Þjóðkirkjan vilji styðja allt kristið fólk í viðleitni þess til að temja sér ábyrgan lífsstíl og hvetji alla, samkynhneigða sem gagnkynhneigða, til að hlýða köllun Krists til náungakærleika og ábyrgðar í kynlífi, sambúð og fjölskyldulífi. Þjóðkirkjan styðji hjónabandið sem sáttmála karls og konu á forsendum hins kristna kærleika og kirkjan styðji enn fremur önnur sambúðarform á sömu forsendum. Þá styðji þjóðkirkjan þá einstaklinga af sama kyni sem vilji búa saman í ást og trúmennsku og staðfesta samvist sína.
Á Kirkjuþingi sem haldið var árið 2007 var lögð fram tillaga til þingsályktunar um að Kirkjuþing samþykkti álit kenningarnefndar. Í tillögu til þingsályktunar kemur fram að álitið og málefnin hafi hlotið mikla umræðu á vettvangi kirkjunnar. Samkvæmt tillögunni var álitið talið fela í sér málamiðlun og lagt var til að fylgja hinni kirkjulegu hefð um að leiða mál til lykta með samstöðu. Í þingsályktunartillögunni segir m.a.:
„Með vaxandi þunga hefur umræðan snúist um stöðu og skilgreiningu hjónabandsins. Álit Kenningarnefndar fer ekki ofan í skilgreining þess, þar er gengið út frá hinum hefðbundna skilningi kirkju og samfélags. Í ályktuninni er undirstrikað að kirkjan standi við þá hefðbundnu skilgreiningu hjónabandsins. Mikilvægt er að hugtökunum samvist og hjónaband sé haldið aðgreindum og samfélagið viðurkenni mismunandi sambúðarform en með sömu réttaráhrifum eins og núgildandi lög gera ráð fyrir.“
Kirkjuþing 2007 ályktaði að þjóðkirkjan stæði við hefðbundinn skilning á hjónabandinu sem sáttmála karls og konu en jafnframt var ályktað um stuðning við vígsluheimild presta eins og áður hefur verið nefnt. Í kjölfar gildistöku breytingarlaganna nr. 55/2008, um vígsluheimild presta, voru staðfestar á Kirkjuþingi 2009 samþykktir um innri málefni þjóðkirkjunnar þar sem m.a. er að finna kafla um framkvæmd kirkjulegrar staðfestingar samvistar.

5.3 Umræða á Alþingi.
    Þann 6. desember 2005 barst Alþingi áskorun frá Samtökum foreldra og aðstandenda samkynhneigðra um að breyta hjúskaparlögunum á þann veg að þau þjónuðu jafnt samkynhneigðu og gagnkynhneigðu fólki.
Frumvarp sem varð að lögum nr. 65/2006 var lagt fram á Alþingi þann 18. nóvember 2005. Jafnhliða hófust umræður um breytingar á hjúskaparlöggjöfinni í þá veru að skilgreina hjúskap kynhlutlaust. Hugmynd um kirkjulega vígsluheimild var rædd sérstaklega enda höfðu einstök trúfélög lýst yfir vilja til að fá heimild til þess. Umræðan þótti þurfa lengri aðdraganda og vandaðri undirbúning og því ekki tímabært að leggja til breytingu sem fæli í sér vígslurétt.
Þann 3. október 2007 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem varða réttindi samkynhneigðra. Frumvarpið gerði ráð fyrir að hjúskaparlögum yrði breytt þannig að þau giltu jafnt um öll pör, samkynhneigð sem gagnkynhneigð, og jafnframt að lögin um staðfesta samvist yrðu felld úr gildi. Frumvarpið var ekki rætt á þinginu.
Þann 3. apríl 2008 var lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um staðfesta samvist sem varð að lögum nr. 55/2008. Í áliti allsherjarnefndar um frumvarpið kemur fram að nefndin taldi þetta mikilvægt skref í þá átt að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Taldi nefndin eðlilegt að næsta skref í þessum efnum yrði að endurskoða hjúskaparlög með það að markmiði að fella saman í einn lagabálk lagaákvæði um hjúskap og staðfesta samvist og taldi að sú endurskoðun ætti að hefjast hið fyrsta. Einn nefndarmanna lagði fram breytingartillögu í þessa veru en hún náði ekki fram að ganga.

5.4 Ein hjúskaparlög fyrir alla.
    Ljóst er að hjúskapur á sér djúpar rætur í löggjöf og menningu. Grunnstoðir hjónabandsins eru hugmyndir um gagnkvæma ást, festu og varanleika sem þykja æskileg skilyrði lífshamingjunnar. Með þetta í huga hefur löggjafinn stutt hjúskap umfram önnur viðurkennd sambúðarform. Þrátt fyrir hinar styrku grunnstoðir hjónabandsins hafa orðið miklar breytingar á eðli þess í gegnum árin. Skilgreining á hjónabandi mótast þannig af félagslegum og menningarlegum þáttum hverju sinni. Auk þess sem áður var nefnt grundvallast hjónaband í dag t.d. á sjónarmiðum um frjálst samkomulag fólks, jafnrétti og samstöðu og á efnahagslegu sjálfstæði hvors um sig.
Hjúskapur er fyrst og fremst borgaraleg stofnun. Löggjöf um hjúskap skilgreinir þetta viðurkennda sambúðarform á hverjum tíma og markar hverjir megi ganga í hjúskap eða hver hjónavígsluskilyrði skuli vera. Þá er það löggjafans að ákveða hvaða réttaráhrif fylgja stofnun hjúskapar.
Í samræmi við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar og alþjóðasamninga sem Ísland hefur skuldbundið sig til að fylgja ber löggjafanum skylda til að vinna gegn misrétti á grundvelli kynhneigðar. Löggjöf á Íslandi hefur grundvallast á því að samkynhneigðir skuli njóta jafnréttis á öllum sviðum samfélags. Þrátt fyrir að staðfesting samvistar hafi nánast öll sömu réttaráhrif og hjúskapur liggur fyrir að gildandi lög gera greinarmun á einstaklingum af gagnstæðu kyni og einstaklingum af sama kyni á þessu sviði. Það að nota mismunandi hugtök um fjölskylduform gagnkynhneigðra og samkynhneigðra á rót að rekja til þeirra tíma þegar samkynhneigðir nutu ekki fullra réttinda og þegar ástæða þótti til að takmarka réttaráhrif sambúðarforms samkynhneigðra. Þessi ólíku hugtök fela í sér aðgreiningu sem er til þess fallin að viðhalda þeim skilningi að það sé grundvallarmunur á fólki eftir kynhneigð. Þennan mun á stöðu einstaklinga er ekki hægt að réttlæta með málefnalegum hætti.
Markmið þessa frumvarps er að undirstrika jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í fjölskyldulífi og tryggja samkynhneigðum jafnan rétt til að velja það sambúðarform sem öðrum stendur til boða. Sjónarmið um hjónaband sem frjálst samkomulag tveggja hefur legið því til grundvallar að löggjafinn hefur sífellt fækkað hjónavígsluskilyrðum til að greiða fyrir því að einstaklingar geti stofnað til þessa fjölskylduforms. Það verður að líta svo á að það styrki hjónaband í sessi að fleiri geti valið að takast á hendur þær skuldbindingar sem felast í því æskilega og mikilvæga lífssambandi sem hjónabandið þykir vera. Það jafnrétti sem umræddar lagabreytingar munu hafa í för með sér er einnig mikilvægt til að auka virðingu og skilning og eyða fordómum í garð samkynhneigðra í samfélaginu.

6. Ýmis álitaefni.
6.1 Skylda eða heimild til að vígja.
    Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. hjúskaparlaga eiga hjónaefni ótvíræðan rétt á að stofna til hjúskapar fyrir borgaralegum vígslumanni hvort sem þau eiga kröfu á kirkjulegri hjónavígslu eða ekki.
Á kirkjulegum vígslumönnum hvílir ekki sams konar skylda. Í 16. og 17. gr. laganna er fjallað um vígsluheimild presta og forstöðumanna skráðra trúfélaga og skv. 2. mgr. 22. gr. laganna getur ráðuneytið, að fengnum tillögum biskups, sett reglur um hvenær prestum sé skylt að framkvæma hjónavígslu og nánari reglur um hvenær þeim sé þetta heimilt. Ákvæði þetta er óbreytt frá setningu eldri laga en ráðuneytið hefur ekki nýtt lagaheimildina til að setja umræddar reglur.
Við túlkun ákvæðisins um vígsluheimild eða vígsluskyldu hefur m.a. verið nefnt að setja megi það skilyrði að annað hjónaefna eða bæði tilheyri því trúfélagi sem á í hlut. Þá hefur einnig verið nefnt að til álita komi að prestur megi neita að vígja hjónaefni ef hann telur slíkt andstætt samvisku sinni og sannfæringu. Ákvæði af því tagi eru í dönskum rétti, sbr. reglur um vígslu innan og utan þjóðkirkjunnar frá 1974. Í 13. gr. norsku hjúskaparlaganna er ákvæði um að kirkjulegur vígslumaður megi neita að vígja hjónaefni ef annað tilheyri ekki viðkomandi trúfélagi eða sé fráskilið og fyrrverandi maki sé enn á lífi. Við þá breytingu sem tók gildi 1. janúar 2009 var bætt við ákvæði 13. gr. að kirkjulegur vígslumaður mætti neita ef hjónaefni væru af sama kyni. Samkvæmt sænsku hjúskaparlögunum er kirkjulegum vígslumönnum almennt ekki skylt að framkvæma hjónavígslu en ekki er til tekið hvaða ástæður geti réttlætt neitun þeirra.
Eins og áður sagði þá byggist heimild kirkjulegra vígslumanna til að staðfesta samvist, samkvæmt breytingalögum nr. 55/2008, á því að prestar muni ekki synja af öðrum ástæðum en vegna trúarsannfæringar sinnar. Telja verður að þessi túlkun fari saman við túlkun á 16. og 17., sbr. 22. gr., hjúskaparlaga og heimild presta til að vígja fólk af sama kyni í hjúskap verði því með sama sniði og heimild þeirra til að staðfesta samvist. Ekki þykir ástæða til að leggja til lagabreytingar um þessi atriði en hvetja má til þess að ráðuneytið skoði að höfðu samráði við biskup og jafnvel fleiri hvort ástæða sé til að setja nánari reglur á grundvelli 22. gr. hjúskaparlaga.
Árétta ber að spurningar um vígsluheimild og vígsluskyldu snerta fyrst og fremst einstaka vígslumenn. Með hliðsjón af stöðu þjóðkirkjunnar á Íslandi þykir mega stefna að því að allir muni geta notið kirkjulegrar vígslu innan þjóðkirkjunnar ef annað eða bæði hjónaefna tilheyra þjóðkirkjunni þó að hver og einn eigi ekki rétt á vígslu af hálfu tiltekins vígslumanns.

6.2 Réttur til að ganga í hjúskap á Íslandi.
    Í hjúskaparlögum, nr. 31/1993, er ekki að finna ákvæði sambærilegt við 2. gr. laga um staðfesta samvist, þar sem gerð er krafa um sérstök tengsl við Ísland eða tiltekin önnur ríki. Hver sá sem uppfyllir hjónavígsluskilyrði, og fær útgefið könnunarvottorð samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga, getur því gengið í hjúskap á Íslandi án þess að gerð sé krafa um íslenskan ríkisborgararétt, ríkisborgararétt í tilteknu landi eða búsetu hér á landi.
Eins og áður var lýst voru rök fyrir umræddu ákvæði 2. gr., um takmarkaðan rétt einstaklinga til að fá samvist sína staðfesta hér á landi, fyrst og fremst þau að fá ríki viðurkenndu fjölskylduform samkynhneigðra og því væri rétt að krefjast þess að einstaklingar hefðu ákveðin tengsl við Ísland eða ríki þar sem slík réttarstaða væri tryggð.
Þeim löndum sem sett hafa lög sambærileg íslenskum lögum um staðfesta samvist hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Þá er ljóst að þeim löndum sem leyfa hjónaband einstaklinga af sama kyni fer ört fjölgandi. Í alþjóðlegum einkamálarétti gildir í fyrsta lagi sú meginregla að þeir sem óska eftir hjónavígslu verða almennt að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í því ríki þar sem óskað er eftir hjónavígslunni. Í öðru lagi gildir það viðmið að ríki viðurkenni gildi hjónabands sem stofnað er til í öðru ríki enda mikil þörf á festu og réttaröryggi á þessu sviði. Samhliða er þó ljóst að hvert ríki setur almennt þann fyrirvara að viðurkenna einungis hjúskap sem þykir ekki brjóta í bága við tilteknar grundvallarreglur eða sjónarmið um allsherjarreglu (ordre public). Þeir sem ganga í hjúskap í tilteknu ríki eiga því engan beinan rétt né kröfu til að hjúskapur þeirra verði viðurkenndur í öðrum ríkjum og þeir bera sjálfir ábyrgð á að kynna sér réttarreglur þess lands þar sem þeir búa, lands sem þeir flytja til eða þar sem þeir vilja krefjast tiltekinna réttinda ef á það reynir.
Með hliðsjón af meginreglunni um rétt einstaklinga til að stofna til hjúskapar þykir ekki koma til álita að takmarka almennt rétt fólks til að ganga í hjónaband á Íslandi. Þá þykja ekki standa málefnaleg rök til þess að takmarka sérstaklega rétt einstaklinga af sama kyni til að stofna til hjúskapar hér á landi enda gengur það gegn þeirri jafnréttishugsun sem liggur til grundvallar frumvarpinu. Þess má geta að sama niðurstaða varð við setningu laga um ein hjúskaparlög t.d. í Hollandi, Belgíu, Spáni, Kanada, Noregi og í Svíþjóð. Í þessum löndum eru gerðar mismunandi kröfur um tengsl hjónaefna við landið þar sem hjónavígsla fer fram en alls staðar gilda sams konar reglur fyrir alla óháð kyni eða kynhneigð.
Í íslenskum lögum eru ekki í gildi almennar lagareglur um gildi ákvarðana á sviði hjúskaparréttar á milli landa. Til að upplýsa einstaklinga frekar um réttarstöðu sína að þessu leyti má t.d. huga að því að árétta í hjónavígsluskýrslu eða könnunarvottorði að hjúskapur sem stofnað er til á Íslandi hafi ekki sjálfkrafa sömu réttaráhrif í öðrum löndum.

6.3 Lagaskil.
    Eins og áður sagði þá þykir mikilvægt að gagnkynhneigðum og samkynhneigðum standi sömu kostir til boða við val á viðurkenndu sambúðarformi. Með hliðsjón af þessu er hér lagt til að lögin um staðfesta samvist falli úr gildi í heild sinni. Jafnframt þarf að taka afstöðu til gildi staðfestrar samvistar sem þegar hefur verið stofnað til og réttaráhrifa slíkrar samvistar eftir að lögin falla brott.
Þegar gerðar voru breytingar á hjúskaparlögunum í Noregi og Svíþjóð var einnig tekin ákvörðun um að fella úr gildi lög þessara landa um staðfesta samvist. Í Noregi var samhliða farin sú leið að bæta sérstöku ákvæði við hjúskaparlögin um gildi staðfestrar samvistar sem stofnað hafði verið til í tíð eldri laga og um möguleika para í staðfestri samvist til að breyta sambandi sínu í hjúskap. Í Svíþjóð voru sett sérstök lög nr. 260 frá 2009 um að fella brott meginatriði laga um staðfesta samvist þar sem einnig voru lögfest ákvæði um gildi þeirra samvista sem þegar hafði verið stofnað til og möguleika til að breyta staðfestri samvist í hjúskap.
Hér er lagt til að bæta sérstöku ákvæði við síðasta kafla hjúskaparlaga sem fjallar um gildistöku og lagaskil. Þykir þessi leið gera réttarstöðuna sýnilegri og standa í betra samhengi við þær meginbreytingar sem stefnt er að með lögunum heldur en ef valin yrði sú leið að láta sérstök lög gilda um þetta eða láta einhver ákvæði laga um staðfesta samvist halda gildi sínu.
Sérstakt álitaefni er hvort staðfest samvist eigi sjálfkrafa að verða að hjúskap við setningu laga þessara eða hvort gefa eigi einstaklingum í staðfestri samvist val um að halda því sambúðarformi. Með lögunum nr. 87/1996 varð til þetta sérstaka viðurkennda sambúðarform sem staðfesta samvistin er. Ljóst er að barátta samtaka samkynhneigðra hefur verið sú að einstaklingar af sama kyni geti valið að ganga í hjúskap með sama hætti og gagnkynhneigðir og það var ekki ósk samkynhneigðra á sínum tíma að sambúðinni yrði gefið annað nafn en hjúskapur. Með hliðsjón af þessu þykir mega ætla að margir í staðfestri samvist mundu fagna því að samvist þeirra mundi með lögum teljast hjúskapur. Af virðingu fyrir þeirri stöðu sem samkynhneigðum hefur verið boðin þykir engu að síður réttara að gera ráð fyrir að samkynhneigðir sem þegar hafa staðfest samvist sína eigi val um hvaða nafn þeir nota um lífssambandið til framtíðar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir sambærilegu fyrirkomulagi og í Noregi og Svíþjóð, þ.e. að pör í staðfestri samvist geti valið að breyta sambandi sínu í hjónaband með tilkynningu til Þjóðskrár eða með því að ganga í hjónaband. Þess má geta að samkvæmt upplýsingum frá norsku þjóðskránni (n. Statistisk sentralbyrå) nýttu um 31% para í staðfestri samvist sér þann kost að breyta staðfestri samvist í hjúskap á fyrstu níu mánuðum ársins 2009.
Mikilvægt er að kynna þessu breytingu vel fyrir þeim sem eiga þetta val og gert er ráð fyrir að Þjóðskrá muni senda bréf til allra einstaklinga í staðfestri samvist með upplýsingum um þennan möguleika og réttaráhrif hinna nýju laga.
Þó reikna megi með að margir velji ofangreindan kost þá þykir engu að síður nauðsynlegt að árétta að þeir einstaklingar sem velji að vera áfram í staðfestri samvist njóti allrar sömu réttarstöðu og makar í hjúskap. Þetta er sambærilegt ákvæði og er nú í 5. gr. laga nr. 87/1996. Þrátt fyrir þetta afdráttarlausa ákvæði í lögunum um staðfesta samvist hefur víða verið sérstaklega áréttað í löggjöf að ákvæði um hjón eigi einnig við um einstaklinga í staðfestri samvist. Eins og áður sagði þykir rétt að afnema lögin um staðfesta samvist í heild sinni. Með sömu rökum þykir mikilvægt að fella úr gildi öll ákvæði laga sem nefna sérstaklega staðfesta samvist eða samvistarmaka enda gefa þau til kynna aðgreiningu sem stefnt er að því að afnema. Hið almenna ákvæði sem lagt er til að verði í hjúskaparlögum um réttarstöðu þeirra sem kjósa að vera áfram í staðfestri samvist tryggir að þessir einstaklingar munu í engu missa af lögbundnum réttindum sínum meðan samvist þeirra varir.

6.4 Lagaákvæði sem bundin eru við kynferði maka.
    Eins og áður sagði var lögum um staðfesta samvist breytt með lögum nr. 52/2000 og tekið fram að lagaákvæði sem fela í sér sérstakar reglur um annan makann í hjúskap og bundin eru við kynferði hans gildi ekki um staðfesta samvist. Fyrir setningu laganna var gengið út frá því að þessi túlkun gilti en ákvæðinu var ætlað að taka af allan vafa um réttarstöðuna þegar þannig hagar til að kynferði maka hafi eðli málsins samkvæmt þýðingu. Við setningu laganna var nefnt sem dæmi að þetta ætti við um feðrun barna þar sem feðrunarreglur um börn giftra foreldra og sambúðarforeldra geti ekki gilt um staðfesta samvist enda óhugsandi að kona í staðfestri samvist geti verið faðir barns sem maki hennar elur. Lagabreytingin þótti fyrst og fremst byggjast á eðli máls.
Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að fella lögin um staðfesta samvist úr gildi og ekki er gert ráð fyrir að lögfesta sérstaklega ákvæði sambærilegt við 1. mgr. 6. gr. laganna. Rétt er að undirstrika að þrátt fyrir þetta er áfram gengið út frá þeirri lagatúlkun að ákvæði I. kafla barnalaga um foreldra eða faðerni barns eigi ekki við um þau börn sem fæðst hafa eða munu fæðast í staðfestri samvist, hjúskap eða óvígðri sambúð einstaklinga af sama kyni.
Efnislegt inntak ákvæðis 1. mgr. 6. gr. laga um staðfesta samvist þykir þannig mega leiða beint af túlkun ákvæða barnalaga um faðerni. Regla barnalaga um að eiginmaður eða sambúðarmaður móður teljist sjálfkrafa faðir barns sem móðirin elur, eða hin svokallaða pater- est regla, byggist beinlínis á því að taldar eru löglíkur fyrir því að þetta faðerni sé rétt, þ.e. að yfirgnæfandi líkur séu á því að viðkomandi maður sé líffræðilegur faðir barnsins. Í 1. gr. barnalaganna kemur fram að barn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína. Löglíkur fyrir faðerni eiginmanna og sambúðarmanna eru einu rökin fyrir því að ekki þyki þörf á sérstökum aðgerðum til að feðra börn við þessar tilteknu aðstæður og í þeim skilningi þykja faðernisreglur barnalaganna þjóna hagsmunum barns. Eins og áður sagði þá er útilokað að samvistarkona, eiginkona móður eða sambúðarkona móður geti verið líffræðilegt foreldri barns sem fæðist í sambandinu. Ekki þykir því koma til álita að pater-est regla barnalaganna sem fjallar um eiginmenn og sambúðarmenn muni eiga við um eiginkonur og sambúðarkonur eftir gildistöku laga þessara.

6.5 Sambúð.
    Eins og áður sagði var eitt meginmarkmið laganna nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra, að jafna stöðu einstaklinga í óvígðri sambúð. Í frumvarpi því sem lá lögunum til grundvallar var lagt til að breyta ákvæðum laga þannig að óvígð sambúð yrði almennt skilgreind sem sambúð tveggja einstaklinga sem síðan mundi uppfylla þau sérstöku skilyrði sem lög settu hverju sinni. Var þetta gert í samræmi við tillögur nefndar um málefni samkynhneigðra og að erlendri fyrirmynd. Einnig var litið til þess að farin hefði verið sú leið í fleiri lögum að nota ókynbundin hugtök nema það þætti leiða af eðli máls að nauðsynlegt væri að tiltaka kynferði.
Frumvarpinu var breytt í meðförum Alþingis. Við setningu laga nr. 65/2006 var þannig víða gert ráð fyrir að skilgreina óvígða sambúð fyrst og fremst sem sambúð karls og konu en bæta svo við sérstöku ákvæði um sams konar réttarstöðu einstaklinga af sama kyni í sambúð.
Um leið og afnumin er með öllu sú aðgreining sem hefur gilt um stöðu fólk samkvæmt ákvæðum hjúskaparlaga þykir nauðsynlegt að breyta einnig ákvæðum laga um óvígða sambúð með sama hætti. Engin málefnaleg rök þykja standa til þess að nefna óvígða sambúð karls og konu sérstaklega og árétta svo að sambærilegt ákvæði gildi um sambúð einstaklinga af sama kyni. Slík ákvæði þykja styðja þá aðgreiningu sem markmiðið er hér að fella úr gildi og því er lagt til að lagaákvæðum sem nota þetta orðalag verði breytt. Lagaákvæði af þessu tagi virðast einnig vera á undanhaldi og rétt að geta þess að í fjölmörgum lögum, m.a. með síðari breytingum, er óvígð sambúð ókyngreind og talað um einstaklinga eða aðila í óvígðri sambúð, sambúðaraðila eða sambúðarmaka. Hér má nefna t.d. í lög um ættleiðingar, nr. 130/1999, lög um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, lög um eftirlaun til aldraðra, nr. 113/1994, lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, lög um hlutafélög, nr. 2/1995, lögræðislög, nr. 71/1997, lög um útlendinga, nr. 96/2002, og lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

6.6 Reglugerðir.
Ef frumvarp þetta verður að lögum er vert að árétta að lagt er til að samhliða verði fellt niður orðalag sem vísar til staðfestrar samvistar eða samvistarmaka þar sem slíkt er að finna í reglugerð. Hér má sérstaklega benda á eftirfarandi reglugerðir en taka verður fram að þessi listi er ekki tæmandi:
–      nr. 326/1996 um könnun hjónavígsluskilyrða,
–      nr. 681/2004 um heimild finnskra og hollenskra ríkisborgara til að stofna til staðfestrar samvistar á Íslandi,
–      nr. 238/2005 um ættleiðingar,
–      nr. 950/2007 um ættleiðingarstyrki,
–      nr. 53/2003 um útlendinga,
–      nr. 179/2003 um dánarbætur frá Tryggingastofnun ríkisins,
–      nr. 1277/2007 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna,
–      nr. 144/2009 um tæknifrjóvgun.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lögð til sú breyting sem felur í sér kjarna frumvarpsins. Í stað ákvæðis núgildandi laga um að hjúskaparlög gildi um hjúskap karls og konu er lagt til að lögin gildi um hjúskap tveggja einstaklinga.
Við val á orðalagi kom til greina að orða ákvæðið sem svo að lögin giltu um hjúskap karls og konu og tveggja einstaklinga af sama kyni. Slíkt orðalag felur hins vegar í sér aðgreiningu. Það gefur ranglega til kynna að einhver munur sé á hjónabandi eftir kyni eða kynhneigð hjónaefna eða maka og viðheldur að einhverju leyti þeirri aðgreiningu sem hefur verið fyrir hendi. Til að ná því jafnrétti sem að er stefnt þykir því mikilvægt að fjalla um hjúskapinn án þess að vísa til kyns.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að í stað orðanna karl og kona í 7. gr. laganna komi orðin tveir einstaklingar. Um rök fyrir þessu vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.

Um 3. og 4. gr.

    Í samræmi við þau markmið sem lýst var í athugasemdum við 1. gr. og í almennum athugasemdum þykir rétt að nota orðið einstaklingur í staðinn fyrir orðið maður í 8. gr. laganna og þann í stað mann í 11. gr. laganna.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði sem bætist aftan við ákvæði núgildandi hjúskaparlaga, í XVII. kafla um gildistöku, lagaskil og brottfallin lög. Ákvæðinu er ætlað að taka af öll tvímæli um gildi staðfestrar samvistar sem þegar hefur verið stofnað til og það hefur að geyma heimildir til að fá samvist viðurkennda sem hjúskap. Um efni ákvæðisins vísast einnig til þess sem segir um lagaskil í almennum athugasemdum.
Í 1. mgr. er gert ráð fyrir að þeir einstaklingar sem eru í staðfestri samvist við gildistöku laganna geti valið að fá samvist sína viðurkennda sem hjúskap. Parið þarf að standa saman að þessu vali sem gert er ráð fyrir að fari fram með því að báðir einstaklingarnir undirriti yfirlýsingu um að þeir óski eftir að samvist þeirra verði hér eftir skráð sem hjúskapur. Gert er ráð fyrir að Þjóðskrá útbúi eyðublað vegna þessa. Undirritaða yfirlýsingu ber svo að afhenda Þjóðskrá sem sér um að breyta skráningunni en miðað er við að breytingin taki gildi frá þeim degi þegar yfirlýsing er lögð fram.
Þess má geta að hér er fyrst og fremst um táknræna yfirlýsingu að ræða þar sem meginreglan er sú að staðfest samvist hefur öll sömu réttaráhrif og hjúskapur. Engu að síður þykir rétt að pör í staðfestri samvist eigi þennan valkost og er það í samræmi við ákvæði norskra og sænskra laga um sama efni. Árétta ber að réttaráhrif staðfestrar samvistar og hjúskapar viðkomandi verða óslitin þrátt fyrir þessa breytingu. Í öllum tilvikum þar sem réttaráhrif miðast við upphaf hjúskapar ber þannig að miða við upphaf hinnar staðfestu samvistar.
Samkvæmt 2. mgr. er einnig gert ráð fyrir að einstaklingar í staðfestri samvist geti stofnað til hjúskapar skv. IV. kafla hjúskaparlaga, þ.e. með því að ganga í hjónaband með formlegum hætti. Þrátt fyrir að hér yrði einnig fyrst og fremst um táknræna athöfn að ræða þá þykir sjálfsagt að gera ráð fyrir þessum möguleika enda hefur hjúskapur og staðfest samvist ekki verið talin sama athöfnin þó svo að réttaráhrifin séu þau sömu. Réttaráhrif verða einnig óslitin í þessum tilvikum með sama hætti og áréttað var um 1. mgr. Par sem velur þessa leið þarf ekki að fá útgefið sérstakt vottorð um könnun hjónavígsluskilyrða heldur nægir að framvísa vottorði um að viðkomandi séu í staðfestri samvist. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði sænskra laga.
Í 3. mgr. er fjallað um þá stöðu þegar einstaklingar í staðfestri samvist kjósa að halda því lífssambandi, þ.e. velja að nýta sér ekki þá kosti sem 1. og 2. mgr. bjóða upp á. Þar sem lagt er til að fella brott lögin um staðfesta samvist samhliða gildistöku laganna er nauðsynlegt að árétta að staðfest samvist sem stofnað hefur verið til í tíð eldri laga hafi eftir sem áður sömu réttaráhrif og hjúskapur. Ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda því um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist. Gera má ráð fyrir að hratt dragi úr vægi þessa ákvæðis á komandi árum.
Í 4. og 5. mgr. þykir rétt að gera ráð fyrir að ákvæði samsvarandi 3. og 4. mgr. 8. gr. laga um staðfesta samvist gildi áfram, þ.e. að einstaklingar í staðfestri samvist geti fengið meðferð og úrlausn mála sem varða samvistina fyrir dómstólum og stjórnvöldum hér á landi, án tillits til atriða eins og búsetu og ríkisfangs. Þrátt fyrir þá þróun sem hefur orðið þá eru rökin að baki rýmri lögsögu dómstóla og stjórnvalda hér á landi í þessum málum þau sömu og við setningu laganna um staðfesta samvist, þ.e. að samkynhneigðum geti reynst ómögulegt að fá úrlausn máls annars staðar en hér á landi. Samsvarandi er einnig áréttað í ákvæði norsku hjúskaparlaganna sem á við um staðfesta samvist.

Um 6. gr.

    Hér eru lagðar til breytingar á orðalagi laga um tilkynningar aðsetursskipta. Í stað orðanna kvæntur maður er lagt til að komi orðin einstaklingur í hjúskap og í stað orðanna konu hans komi orðin maka hans. Þrátt fyrir að umrætt orðalag sé notað í dæmaskyni í lagaákvæðinu þykja standa rök til að breyta því til samræmis við anda þessa frumvarps.

Um 7. og 8. gr.

    Í greinunum eru lagðar til mikilvægar breytingar á ákvæðum laga um íslenskan ríkisborgararétt en þær ganga út á að jafna stöðu barna sem fæðast í ólíkum fjölskyldugerðum. Þessar breytingar má leiða efnislega af þeim breytingum sem gerðar voru á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra með lögum nr. 65/2006 þar sem lesbíum var m.a. heimilaður aðgangur að tæknifrjóvgun. Segja má að breytingarnar séu því nátengdar þeim markmiðum sem frumvarp þetta stefnir að. Breytingarnar miða að því að tryggja barni sem getið er við tæknifrjóvgun sömu möguleika á að öðlast íslenskan ríkisborgararétt óháð kyni þess foreldris sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á maka sínum.
Ákvæði 1. og 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. gildandi laga um íslenskan ríkisborgararétt, sbr. og 6. gr. barnalaga, nr. 76/2003, hafa í för með sér grundvallarmun á réttarstöðu barns sem getið er við tæknifrjóvgun eftir því hvort í hlut eiga annars vegar maður og kona í hjúskap eða óvígðri sambúð eða hins vegar tvær konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð. Efnislega er staðan sú að ef maður og kona eignast barn sem getið er samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun fær barnið íslenskan ríkisborgararétt ef móðir þess er íslenskur ríkisborgari eða ef faðir þess er íslenskur ríkisborgari. Ef hins vegar er um að ræða tvær konur þá fær barn sem getið er samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun einungis íslenskan ríkisborgararétt ef móðir þess, þ.e. konan sem fæðir barnið, er íslenskur ríkisborgari en ekki ef maki hennar eða sambúðarmaki er íslenskur ríkisborgari enda telst makinn aldrei faðir barns samkvæmt ákvæðum barnalaga.
Í 7. og 8. gr. frumvarpsins er lögð til sú viðbót við ákvæði 1. og 2. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt að þessi ákvæði gildi einnig um þá sem teljast foreldri barns skv. 2. mgr. 6. gr. barnalaga. Um orðið foreldri verður að vísa til athugasemda við breytingar sem lagðar eru til á umræddu ákvæði barnalaganna í 21. gr. þessa frumvarps.

Um 9. og 10. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag í lögum um íslenskan ríkisborgararétt og lögum um þjóðskrá og almannaskráningu þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að breyta ákvæði lögheimilislaga um skráningu sambúðar. Í samræmi við umfjöllun í almennum athugasemdum þykir það fara gegn markmiðum frumvarps þessa að aðgreina óvígða sambúð sem annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni. Aðgreining þessi þjónar engum tilgangi, lagt er til að fella hana niður og að lögin vísi til sambúðar tveggja einstaklinga.

Um 12. gr.

    Hér er lögð til orðalagsbreyting með sömu rökum og nefnd eru í skýringum við 11. gr. frumvarpsins. Orðalag greinarinnar um sambúð er einnig gert skýrara og höfð hliðsjón af sambærilegum lagaákvæðum, sbr. t.d. 5. mgr. 2. gr. ættleiðingarlaga, nr. 130/1999.

Um 13. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á ákvæðum laga um mannanöfn með það að markmiði að jafna stöðu barna sem fæðast í ólíkum fjölskyldugerðum. Með sama hætti og gildir um 7. og 8. gr. frumvarpsins má leiða þessar breytingar efnislega af þeim breytingum sem gerðar voru á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra með lögum nr. 65/2006 þar sem lesbíum var m.a. heimilaður aðgangur að tæknifrjóvgun.
Ljóst er að orðalag laganna um mannanöfn um föðurnöfn gildir m.a. um þann sem telst faðir barns sem getið er við tæknifrjóvgun, sbr. 6. gr. barnalaga og lög um tæknifrjóvgun. Ákvæði um kenningu til föður gilda hins vegar ekki samkvæmt orðanna hljóðan með samsvarandi hætti um konu sem er í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu sem fæðir barn, sem getið er samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun. Mikilvægt þykir að tryggja jafna réttarstöðu þessara barna.
Best þykir fara á því að leggja til nýjan málslið í 2. mgr. 8. gr. laganna þar sem fjallað er um kenninöfn enda reynir þar helst á föður- og móðurnöfn barna. Til að taka af öll tvímæli er lagt til að með orðalaginu kenningu til föður sé einnig átt við kenningu til foreldris barns sem getið er við tæknifrjóvgun skv. 2. mgr. 6. gr. barnalaga. Um orðið foreldri verður að vísa til athugasemda við breytingar sem lagðar eru til á umræddu ákvæði barnalaganna í 21. gr. þessa frumvarps.

Um 14.–18. gr.

    Í greinunum er lagt til að fella brott orðalag ýmissa lagaákvæða þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 19. gr.

    Um faðernisreglur barnalaganna almennt er vísað til kafla í almennum athugasemdum um lagaákvæði sem bundin eru við kynferði maka. Markmið með 19. gr. frumvarpsins er fyrst og fremst að gera ákvæði 3. gr. barnalaga skýrari og afmarka betur almennar reglur um faðerni og reglur um foreldri við tæknifrjóvgun. Þær breytingar sem hér eru lagðar til þykja samræmast markmiðum frumvarpsins að öðru leyti enda nauðsynlegt að huga vel að öllum atriðum sem tengjast sifjaréttinum þegar sett eru lög sem hafa það að markmiði að afnema aðgreiningu fólks á fjölskyldusviði.
Ákvæði 19. gr. frumvarpsins tengist 20. og 21. gr. frumvarpsins. Breytingin gengur efnislega út á að í 1. mgr. 3. gr. laganna verði eingöngu hnykkt á því hvernig reglur laganna um faðernisviðurkenningu eða dómsúrlausn eigi við ef barn verður ekki feðrað samkvæmt feðrunarreglum 2. gr. laganna. Þetta eru þau atriði sem oftast reynir á í framkvæmd.
Þá er lagt til að í 2. mgr. 3. gr. verði vísað til þess að 6. gr. laganna eigi við um foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun.

Um 20. og 21. gr.

    Í greinunum er lagt til að sameina í eina grein þau tvö ákvæði barnalaga sem nú gilda um það hver telst foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun enda telst það skýrari framsetning. Í 20. gr. er þannig lagt til að fella niður ákvæði 5. gr. laganna um móðerni við tæknifrjóvgun en í 1. mgr. 21. gr. er að finna sams konar efnisákvæði óbreytt.
Meginbreytingin felst þó í tillögu 2. mgr. 21. gr. frumvarpsins um það hugtak sem notað er um eiginkonu eða sambúðarkonu móður sem gengst undir tæknifrjóvgun.
Í frumvarpi til laga, þar sem m.a. var gert ráð fyrir að lesbíum yrði leyft að gangast undir tæknifrjóvgun, var lagt til að nota orðið foreldri um réttarstöðu þeirrar konu sem samþykkir að tæknifrjóvgun fari fram á samvistar- eða sambúðarmaka sínum. Allsherjarnefnd Alþingis taldi hugtakið foreldri ekki falla nægilega vel að almennri notkun orðsins og að það gæti valdið misskilningi, t.d. við útgáfu fæðingarvottorða á erlendum tungumálum. Með lögum nr. 65/2006 var ákveðið að nota hugtakið kjörmóðir um réttarstöðu þessara kvenna.
Orðið kjörmóðir verður að teljast afar óheppilegt í þessu sambandi. Orðið kjörmóðir er fyrst og fremst notað um konu sem hefur ættleitt barn í samræmi við ákvæði ættleiðingarlaga. Ættleiðing er sérstakt verndarúrræði fyrir barn og um réttarstöðu kjörmóður, kjörföður og kjörbarns gilda lög sem hafa verið sniðin að því úrræði. Á þessu sviði reynir líka talsvert á alþjóðasamninga og alþjóðlegt samstarf þar sem lögð er rík áherslu á sérstöðu ættleiðinga og hagsmuni barns í tengslum við ættleiðingu. Ruglingshætta vegna útgáfu vottorða á erlendum tungumálum er því talsverð.
Þá verður að benda á að ákvæði barnalaga gera í grundvallaratriðum mun á réttarstöðu barns eftir því hvort tæknifrjóvgun fer fram samkvæmt ákvæðum laganna um tæknifrjóvgun eða hvort frjóvgun fer fram án þess að formreglna sé gætt. Í fyrra tilvikinu reynir á reglur barnalaganna um það hver teljist foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun og sérstakar reglur gilda um vefengingu á slíkum ákvörðunum. Í síðari tilvikinu reynir hins vegar á almennar feðrunarreglur laganna og hinar almennu reglur um faðernismál eða vefengingar- og ógildingarmál. Í þessum síðari tilvikum getur einnig beinlínis reynt á rétt konu til að stjúpættleiða barn maka síns. Telja verður mjög villandi að nota sama hugtakið annars vegar um konu sem verður sjálfkrafa foreldri barns sem getið er við tæknifrjóvgun sem fer fram samkvæmt lögum og hins vegar um konu sem hefur stjúpættleitt barn maka síns, t.d. eftir frjóvgun sem fer fram með óformlegri hætti. Réttarstaða barnanna gagnvart þessum kjörmæðrum sínum er enda ekki fyllilega sú sama þar sem það kemur t.d. til álita að beita 23. gr. barnalaganna um vefengingu ef spurningar vakna um framkvæmd tæknifrjóvgunar en ættleiðing er hins vegar ekki afturkallanleg.
Í þessu frumvarpi er lagt til að kona sem samþykkt hefur að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu, samkvæmt ákvæðum laga um tæknifrjóvgun, teljist foreldri barns sem þannig er getið. Eins og áður sagði er þetta sama leið og lögð var til í frumvarpi til laga um breytingu á réttarstöðu samkynhneigðra og byggðist á skýrslu nefndar forsætisráðherra sem skilað var árið 2005. Þessi leið var farin í Svíþjóð þegar lögfestur var réttur samkynhneigðra kvenna til að gangast undir tæknifrjóvgun. Lögð er áhersla á að orðið foreldri nær almennt yfir það réttarsamband sem orðin móðir og faðir fela í sér og því er ekki talinn leika vafi á því hvað felst í réttarstöðu konunnar eða barnsins.
Til álita kemur að nota orðið móðir um hvort tveggja þá konu sem elur barn sem getið er við formlega tæknifrjóvgun svo og eiginkonu hennar eða sambúðarkonu. Orðið móðir kemur nokkrum sinnum fyrir í lögum og alþjóðasamningum og þar er átt við þá konu sem elur barn. Markmið lagaákvæða af þessu tagi er stundum að tryggja konum sem fæða börn þann sjálfsagða rétt og þá þjónustu sem þær eiga skilið beinlínis í tengslum við meðgöngu og fæðingu. Konur sem ganga með og fæða börn eru þannig ekki að öllu leyti í sömu eða sambærilegri stöðu og makar þeirra meðan á þessu stendur. Ef farin yrði sú leið að nota orðið móðir í barnalögum um þá réttarstöðu sem hér um ræðir þá kallar það á breytingar á nokkrum lögum þar sem taka yrði afstöðu til þess hvort átt væri eingöngu við móður sem fæðir barn. Þess má geta að í Noregi var tekin ákvörðun um nota orðið meðmóðir (n. medmor) og skilgreina sérstaklega hvað í því felst.
Árétta ber að sú skilgreining sem notuð er í barnalögum hefur fyrst og fremst þann tilgang að skýra réttarstöðu barns að lögum en hefur lítið að segja þegar kemur að því hvernig barn ávarpar foreldra sína.
3.–5. mgr. 21. gr. frumvarpsins eru efnislega að öllu leyti samhljóða 1., 3. og 4. mgr. 6. gr. gildandi laga.

Um 22. og 23. gr.

    Í greinunum er lagt til að orðið foreldri komi í stað orðsins kjörmóðir í 23. og 25. gr. barnalaga og vísast til skýringa við ákvæði 21. gr. frumvarpsins.
Í b-lið 23. gr. frumvarpsins þykir auk þess heppilegast að nota orðið foreldri sem samheiti yfir hvort tveggja mann og konu í stað orðanna mann eða kjörmóður í 3. mgr. 25. gr. barnalaganna.

Um 24. og 25. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag í lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 26. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag þar sem vísað er til staðfestrar samvistar. Þess verður að geta að aðdragandi ákvæðis 100. gr. í lögum um vátryggingarsamninga er með sérstöku móti. Við setningu laga nr. 30/2004 sagði í athugasemd við 2. mgr. 100. gr. að orðið maki tæki ekki til eftirlifandi samvistarmanns þótt til samvistar hefði verið stofnað samkvæmt lögum um það efni, nr. 87/1996. Þessi ummæli urðu tilefni ágreinings og var lögunum sérstaklega breytt með lögum nr. 118/2005 til að taka af öll tvímæli um rétt eftirlifandi maka í staðfestri samvist. Þrátt fyrir að hér sé lagt til að fella aftur á brott umrætt orðalag um staðfesta samvist í ákvæði 100. gr. þá þykir ákvæði 5. gr. laga um staðfesta samvist og ákvæði 5. gr. þessa frumvarps afdráttarlaus um að staðfest samvist hafi sömu réttaráhrif og hjúskapur. Ummæli í athugasemd við 2. mgr. 100. gr. í frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga hafa því sem fyrr enga þýðingu við túlkun og framkvæmd laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004.

Um 27. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 28. og 29. gr.

    Hér er lagt til að fella niður þá aðgreiningu sem felst í því að tilgreina annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og í húsaleigulögum. Um þetta vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og skýringa við 11. gr. frumvarpsins.

Um 30.– 36. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag ýmissa lagaákvæða þar sem vísað er til staðfestrar samvistar eða samvistarmaka.

Um 37. og 38. gr.

    Hér er lagt til að fella niður þá aðgreiningu sem felst í því að tilgreina annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni í lögum um almannatryggingar og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Um þetta vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og skýringa við 11. gr. frumvarpsins.

Um 39. gr.

    Í a-lið er lagt til að fella brott orðalag þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.
Í b- og c-lið er lagt til að fella niður þá aðgreiningu sem felst í því að tilgreina annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni. Um þetta vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og skýringa við 11. gr. frumvarpsins.

Um 40. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 41. og 42. gr.

    Í a- og d-lið greinanna er lagt til að fella brott orðalag þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.
Í b- og c-lið greinanna er lagt til að fella niður þá aðgreiningu sem felst í því að tilgreina annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni. Um þetta vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og skýringa við 11. gr. frumvarpsins.

Um 43.–45. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag í lögum um Lífeyrissjóð bænda þar sem vísað er til staðfestrar samvistar eða samvistarmaka.

Um 46. gr.

    Í a-lið er lagt til að fella niður þá aðgreiningu sem felst í því að tilgreina annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni. Um þetta vísast til umfjöllunar í almennum athugasemdum og skýringa við 11. gr. frumvarpsins.
Í b-lið er lagt til að fella á brott málsgrein þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 47. gr.

    Lagðar eru til breytingar á ákvæði 80. gr. laga um tekjuskatt sem fela í sér hvort tveggja að fella brott orðalag sem vísar til staðfestrar samvistar og orðalag sem aðgreinir sambúð eftir kyni.

Um 48.–51. gr.

    Hér er lagt til að fella brott orðalag ýmissa lagaákvæða þar sem vísað er til staðfestrar samvistar.

Um 52. gr.

    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar á ákvæði 9. gr. laga um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna. Þessar breytingar miða að því að gera orðalag ákvæðisins skýrara um leið og felld er brott vísun til staðfestrar samvistar. Til að útskýra þetta nánar þá segir m.a. í 2. mgr. 9. gr. núgildandi laga að geymsla fósturvísa sé háð því skilyrði að karlmaður sá og kona, sem leggja kynfrumurnar til, eða konur í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð eða einhleyp kona, veiti skriflegt samþykki fyrir geymslunni. Þegar um karlmann og konu er að ræða þá er ljóst að stundum leggja þau bæði til kynfrumur en stundum einungis annað þeirra. Samkvæmt orðanna hljóðan virðist einungis krafist samþykkis þess sem leggur til kynfrumur þegar það á við. Orðalag ákvæðisins er hins vegar ótvírætt um samþykki beggja kvenna í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er ætíð krafist samþykkis beggja þegar um par er að ræða óháð því hvort annað eða bæði leggja til kynfrumur. Með hliðsjón af þessu er lagt til að orða þetta skilyrði með þeim hætti að geymsla fósturvísa sé háð samþykki karlmanns eða konu, sem leggi til kynfrumur, og maka viðkomandi eða sambúðarmaka. Að auki gildir áfram skilyrði um samþykki einhleyprar konu.
Í tengslum við þetta verður einnig að benda á tiltekinn mun sem er á réttarstöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para samkvæmt ákvæðum laganna um tæknifrjóvgun. Lögin ganga út frá því að þegar par á í hlut verði við tæknifrjóvgun alltaf notaðar kynfrumur frá að minnsta kosti öðru þeirra. Þegar um karl og konu er að ræða má þannig frjóvga egg konunnar með gjafasæði eða nota sæði mannsins til að frjóvga gjafaegg að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Þegar um tvær konur er að ræða er tekið sérstaklega fram í 1. mgr. 5. gr. að nota megi gjafasæði. Samkvæmt upplýsingum frá ART Medica, sem sér um framkvæmd tæknifrjóvgunar, þá hefur tæknifrjóvgun í tilviki tveggja kvenna ýmist verið framkvæmd með tæknisæðingu, þ.e. frjóvguð eggfruma þeirrar konu sem gengur með barnið, eða með glasafrjóvgun, þ.e. frjóvguð eggfruma frá maka þeirrar konu sem gengur svo með barnið. Rök fyrir þessu geta verið þau að einungis önnur kvennanna geti lagt til eggfrumu en hún geti hins vegar ekki gengið með barn, að tæknisæðing hafi verið reynd en ekki gengið eða að þetta sé eindregin ósk kvennanna. Munurinn á réttarstöðu gagnkynhneigðra og samkynhneigðra para verður hins vegar ljós þegar kemur að geymslu fósturvísa. Við setningu laga um tæknifrjóvgun þótti eðlilegt að leyfa geymslu fósturvísa til eigin nota. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 9. gr. laganna má því geyma fósturvísa í þeim tilgangi að koma þeim fyrir í konu þeirri sem lagði til eggfrumurnar eða eiginkonu eða sambýliskonu karlmannsins sem lagði til sæðisfrumur. Lögin gera hins vegar ekki ráð fyrir að geyma megi fósturvísa í þeim tilgangi að koma þeim fyrir í eiginkonu eða sambýliskonu þeirrar konu sem lagði til eggfrumu. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er ráðgert að endurskoða ýmis ákvæði laganna um tæknifrjóvgun. að því er varðar t.d. gjafakynfrumur. Með hliðsjón af þessu eru ekki lagðar til í frumvarpinu breytingar á umræddu ákvæði 1. mgr. 9. gr. en eindregið er hvatt til þess að ákvæðið verði endurskoðað hið fyrsta enda engin rök fyrir því að gera þennan mun sem hér var lýst.

Um 53. gr.

    Í greininni eru lagðar til orðalagsbreytingar á ákvæði 4. mgr. 10. gr. laga um tæknifrjóvgun. Þessar breytingar miða að því að gera orðalag ákvæðisins einfaldara og skýrara með því að sleppa því að vísa annars vegar til karls og konu og hins vegar til tveggja kvenna. Tillaga um breytt orðalag vísar einnig að sínu leyti til tillögunnar í 52. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir samþykki beggja í hjúskap eða óvígðri sambúð ef geyma á fósturvísa.

Um 54. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi þann 27. júní 2010 en sá dagur er táknrænn þegar kemur að gildistöku laga á þessu réttarsviði. Hér er um að ræða alþjóðlegan mannréttindabaráttudag samkynhneigðra og hefur hann oftast orðið fyrir valinu þegar lögum hefur verið breytt til að bæta réttarstöðu samkynhneigðra. Þegar lög um staðfesta samvist voru sett árið 1996 tóku þau gildi 27. júní og það sama má segja um lagabreytingarnar sem voru gerðar með lögum nr. 65/2006 og lögum nr. 55/2008. Þessi dagsetning gefur einnig nokkuð færi á að undirbúa gildistöku laganna.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á hjúskaparlögum og fleiri lögum
og um brottfall laga um staðfesta samvist (ein hjúskaparlög).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að í stað þess að gildandi hjúskaparlög gildi eingöngu um hjúskap karls og konu gildi lögin um hjúskap tveggja einstaklinga. Jafnframt er lagt til að lög um staðfesta samvist verði felld úr gildi. Með breytingunum er þannig lagt til að afmáður verði sá munur sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestrar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.